Dýru pallaefni stolið

Um verslunarmannahelgina hurfu 37 borð af samsteyptu pallaefni þar sem það var í geymslu á lóð austan við Gagnheiði 47 á Selfossi.

Hvert borð er ljósbrúnt með viðaráferð 3,66 metrar á lengd, 140 mm á breidd og 24 mm á þykkt. Þarna er um að ræða eftirlíkingu af harðviði gert úr gerviefnum, Fiberon Professional.

Efnið er mjög þungt í sér og ljóst að það hefur ekki verið tekið í einu lagi nema á vörubifreið eða burðarmikla kerru. Síðast var vitað af pallaefninu síðastliðinn föstudag en á mánudag var það horfið.

Þeir sem veitt geta upplýsingar um pallaefnið og hvarf þess eru beðnir að hafa samband við lögreglu í síma 480 1010.

Fyrri greinGóður kippur í Eystri-Rangá
Næsta greinKári Steinn keppir við Árborgarliðið