Dyrnar að Eden liggja undir skemmdum

Hurðirnar að Eden, sem Sparisjóður Vestmannaeyja, gaf Hveragerðisbæ á dögunum liggja undir skemmdum í geymslu í bænum.

Hurðirnar eru listaverk eftir Erlend F. Magnússon og hefur hann sóst eftir að fá þær til viðgerðar án árangurs. Þetta kemur fram í viðtali við Erlend í Feyki, fréttablaði á Norðurlandi vestra.

Framhlið umræddra hurða, ásamt stöfunum í Eden-merkingunni, var það eina sem ekki skemmdist í eldsvoðanum. Bæjarráð Hveragerðis þáði hurðirnar á dögunum með þeim fyrirvara um að ekki yrði ráðist í viðgerðir.

Erlendur segir í Feyki að framhlið hurðanna sé farin að bogna og springa og ef ekkert verður að gert fljótlega muni útskurðurinn eyðileggjast.

Í Eden var gríðarmikið af handverki eftir Erlend og var það honum mikið áfall þegar Eden brann. Hurðirnar voru þó vel sviðnar og gegnbrenndar við dýpstu útskurðina, auk þess sem límið hafði hitnað og því við það að detta í sundur.

„Hefðu þeir opnað hurðirnar hefðu þær sloppið,“ sagði Erlendur og bætti við: „Það þótti kraftaverk að þær hefðu yfir höfuð sloppið og yfirlýsingar voru gefnar út um að það yrði gert við þær og þær varðveittar. Þar sem ég hannaði, smíðaði og skar þær út þá bauðst ég til að gera þær upp, þannig að þær myndu varðveitast. Kostnaðurinn hljómar uppá rúmar 600 þúsund krónur, en var enginn áhugi fyrir því. Loks bað ég um að fá þær til viðgerðar á minn kostnað en fékk ekkert svar,“ segir Erlendur.

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, segir í samtali við Feyki að hurðirnar verði settar í geymslu þar til hefur verið ákveðið hvað á að gera við þær. „Að svo stöddu erum við ekki að fara í kostnaðarsamar viðgerðir á þeim, við hefðum kannski gert það árið 2007 en nú er bara kreppa,“ sagði Aldís.

Vefur Feykis

Fyrri greinSkemmdarvargar á Selfossi
Næsta greinJón Daði, Sigurður og Stefán í U21 úrtak