Dýrbítar drápu tugi lamba og kinda

Tveir boxerhundar hafa drepið tugi kinda og lamba við Þórðarkot í Eyrarbakkahreppi. Þeir náðust í morgun og voru aflífaðir á staðnum.

Fangar af Litla-Hrauni sem voru við girðingarvinnu við Þórðarkot í morgun sáu hundana þar sem þeir voru að elta sauðfé og bíta. Eigandi kindanna fór á staðinn ásamt fleiri mönnum og voru hundarnir skotnir þar sem þeir voru í fénu en bændur hafa leyfi samkvæmt lögum til að fella dýrbíta skilyrðislaust.

Þegar sunnlenska.is bar að garði höfðu heimamenn farið yfir lítið svæði og talið að minnsta kosti 20 dauð lömb og nokkrar kindur auk þess sem sært fé sást á svæðinu. Beitarhólfið er nokkuð stórt og hafði aðeins lítill hluti þess verið skoðaður en hólfið verður smalað í dag og kemur þá í ljós hversu mikinn skaða hundarnir unnu.

Dýralæknir kom á staðinn og staðfesti að um hundsbit væri að ræða en eitthvað af fénu hafði legið dautt í nokkra daga og því líklegt að hundarnir hafi verið þarna áður á ferðinni.

Lömbin voru bitin á háls og hausarnir á þeim mölbrotnir og kindurnar voru með stór bitsár á snoppunni.

Sigurður Nilssen, eigandi fjárhópsins, sagði í samtali við sunnlenska.is að um töluvert tjón væri að ræða, bæði tilfinningalegt og fjárhagslegt. Hann mun leggja fram bótakröfu á hendur eiganda hundanna vegna þess tjóns sem hann hefur orðið fyrir.

Þórðarkot er efst og vestast í Eyrarbakkahreppi, næsti bær fyrir ofan er Hreiðurborg í Sandvíkurhreppi og stutt er í búgarðabyggðina í Tjarnarbyggð en grunur leikur á að hundarnir hafi sloppið frá eiganda sínum þar.

Fyrri greinEldur í spónaverksmiðju
Næsta greinFerðamönnum bjargað af Lakavegi