Dýrbít sleppt lausum

Sveitarstjórn Rangárþings ytra er ósátt við að lögregla og héraðsdýralæknir ákváðu nýlega að sleppa hundi, sem náðist eftir að hafa bitið lamb sem síðan þurfti að aflífa.

Sveitarstjórn beinir þeim tilmælum til viðkomandi yfirvalda, lögreglu og héraðs dýralæknis, að farið sé að gildandi samþykktum og lögum í tilvikum sem þessum.

„Samkvæmt samþykktum okkar á að lóga dýrbítum,“ segir Gunnsteinn R. Ómarsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra, „en einhverra hluta vegna var það ekki gert og hundurinn sem var gestkomandi er farinn af svæðinu.“

Gunnsteinn bendir á að stöðug hætta er af völdum hunda sem einu sinni hafa gerst dýrbítar.