Dýrast fyrir „aðkomufjölskyldu“ að fara í sund í Árborg

Sundhöll Selfoss. sunnlenska.is/Helga R. Einarsdóttir

Stakur sundmiði er dýrastur í Árborg og hjá Reykjavíkurborg að því er fram kemur í könnun verðlagseftirlits ASÍ á verðbreytingum á gjaldskrám sundstaða hjá fimmtán stærstu sveitarfélögum landsins um áramót.

Þrettán sveitarfélög hækkuðu gjaldið á stökum miða. Mesta hækkunin á milli ára er 50% hjá Sveitarfélaginu Árborg eða úr 600 kr. í 900 kr. sem er sama verð og hjá Reykjavíkurborg sem hækkar gjaldið úr 650 kr. í 900 kr.

Tíu miða kort hefur hækkað í verði hjá ellefu sveitarfélögum af þeim fjórtán sem selja slík kort. Hæst er það á 4.900 kr. hjá Kópavogsbæ og lægst á 3.700 kr. hjá Mosfellsbæ sem er 32% verðmunur. Sambærilegt kort kostar 3.800 kr. í Árborg og hefur hækkað um 9%.

Mikill verðmunur er á árskorti fullorðinna, eða allt að 116%. Hæst er það á 35.700 kr. hjá Fljótdalshéraði og lægst á 16.500 kr. hjá Ísafjarðabæ. Árskortið kostar 27.500 kr. í Árborg og hefur hækkað um 4%.

Börn á grunnskólaaldri
Fjórtán sveitarfélög af þeim fimmtán sem voru skoðuð eru með gjaldskrá fyrir börn, en stundum er frítt inn fyrir börn sem búsett eru í sveitarfélaginu. Árborg tók upp 150 kr. gjald fyrir börn búsett utan Árborgar nú um áramótin. Hæsta gjaldið fyrir staka sundferð barna er 300 kr. hjá Ísafjarðabæ og Sveitarfélaginu Skagafirði en lægst er gjaldið á 120 kr. hjá Seltjarnarneskaupstað sem er 180 kr. verðmunur eða 150%.

Hvað kostar fyrir 2 fullorðna og 2 börn að fara í sund?
Fjölskylda samansett af tveimur fullorðnum og tveimur börnum á gjaldskyldualdri ákveður að gera sér glaðan dag og fara í sund í öðru sveitarfélagi þarf að borga umtalsverða upphæð til að koma fjölskyldunni ofan í laugina.

Dýrast er að fara með hópinn í sund á 2.100 kr. í Árborg, á 2.080 kr. hjá Reykjavíkurborg svo á 2.000 kr. hjá Sveitarfélaginu Skagafirði. Hagstæðast er að fara í sund með hópinn á Akranesi en þar kostar ekkert fyrir börn og ferðin kostar 856 kr. fyrir þessa fjögurra manna fjölskyldu. Verðmunurinn er 145% eða 1.244 kr. á dýrasta og ódýrasta gjaldinu.

Verðkönnun ASÍ

Fyrri greinUm 170 keppendur tóku þátt
Næsta greinStórt tap í Stykkishólmi