Dýpkunarkostnaður margfaldast

Kostnaður við að dæla sandi úr Landeyjahöfn í ár mun margfaldast miðað við áætlanir segir forstöðumaður hjá Siglingastofnun.

Í ár þarf að dæla tífalt meiri sandi úr höfninni en í meðalári. Í samgönguáætlun var gert ráð fyrir 25 milljónum króna á ári í viðhaldsdýpkun Landeyjahafnar en í meðalári var talið þurfa að dæla um 30.000 rúmmetrum af sandi úr höfninni. Ljóst er að í ár mun þetta magn tífaldast og verður 300.000 rúmmetrum dælt upp úr höfninni.

Í fréttum RÚV sagði Sigurður Áss Grétarsson, forstöðumaður Siglingastofnunar, að veturinn verði erfiður þar sem ströndin sé ekki í jafnvægi. Gosið í Eyjafjallajökli og ríkjandi suðaustanátt valdi þessu.

Dýpkunarskipið Perla vinnur nú að dýpkun í höfninni en hætta varð vinnu síðdegis í gær vegna hvassviðris. Vonast er til að dæling hefjist aftur á morgun en gert er ráð fyrir að verkið taki fjóra til fimm daga. Kostnaðurinn við það er um 10 milljónir króna.