Dýpkun gengur mjög hægt

Dýpkunarskipið Perla liggur við bryggju í Vestmannaeyjum þar sem aðstæður í Landeyjahöfn eru ekki hentugar til dýpkunar.

Ölduhæð hefur verið tæpir tveir metrar í morgun en hún má ekki vera meiri en einn metri svo skipið geti athafnað sig.

Óttar Jónsson, skipstjóri á Perlu, segist lítið annað geta gert en að fylgjast með veðri og sjólagi á svæðinu á klukkutíma fresti. Hann á ekki von á því að geta hafið dýpkun fyrr en í fyrsta lagið eftir hádegið í dag.

Búið er að fjarlægja um 1.800 rúmmetra af sandi úr nýju höfninni frá því á laugardag. Talið er að tuttugu þúsund rúmmetrum þurfi að moka burt svo Herjólfi geti hafið siglingar í Landeyjahöfn á ný. Herjólfur mun því sigla til Þorlákshafnar næstu daga.

RÚV greindi frá þessu.

Fyrri greinGoslokum ekki lýst yfir
Næsta greinGert að skera niður um 9%