Drunurnar líklega af völdum loftsteins yfir Þingvöllum

Sama hvað það var sem var á ferðinni, þá er það staðfest að næturhimininn var gullfalegur í uppsveitunum í nótt. Ljósmynd/Jón Bjarnason

Veðurstofan telur að drunurnar sem heyrðust á Suðurlandi á ellefta tímanum í gærkvöldi hafi verið af völdum loftsteins, sem hafi brunnið hratt upp í andrúmsloftinu.

Drunurnar heyrðust um allt suðvesturhorn landsins og á Selfossi og nágrenni nötruðu rúður í húsum. Hross fældust og fuglar flugu órólegir um uppsveitirnar langt fram eftir nóttu.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni sýna jarðskjálftamælingar á Suðvesturlandi mjög stuttan, innan við 2 sekúndna, en þó greinilegan púls milli klukkan 22:44-22:48 í gærkvöldi. Sjálfvirka jarðskjálftamælakerfið nemur ekki þennan púls, þar sem hann ferðast miklu hægar en jarðskjálftabylgjur.

„Við ályktum sem svo að hér sé á ferðinni þrýstibylgja í andrúmslofti en margar tilkynningar um drunur bárust frá suðvesturlandi í gærkveldi. Skömmu áður sást blossi á himni og er líklegasta skýringin á þessu fyrirbæri sú að lofsteinn hafi brunnið hratt upp í andrúmslofti og við það hafi bæði orðið nokkur blossi og þrýstibylgja í andrúmslofti, m.ö.o. innhljóðsbylgja (e. infrasound),“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.

Myndin hér að neðan sýnir innhljóðsbylgjuna eins og hún mælist af jarðskjálftamælanetinu. Hún hefur ekki verið staðsett nákvæmlega en fyrstu mælingar eru í grennd við Þingvelli og er líklega staðsetning upptakanna ofan við það svæði. Engin jarðskjálfti mældist á þessum tíma þ.a. líklegast hefur lofsteinninn brunnið að öllu leiti upp í andrúmsloftinu.

Fyrri greinStuð á Stokkseyrarbryggju
Næsta greinPáfagaukar eru ofmetnir