Drunur og skjálftar við Gígjökul

Gosvirkni í Eyjafjallajökli var svipuð í gær og síðustu daga. Gosmökkurinn rís nú hærra en hæstu bólstrar fóru í 5,5 km hæð í gær.

Hraunflæði undir Gígjökli heldur áfram þó að hrauntungan sé ekki komin í ljós undan jöklinum. Vísindamenn við Gígjökul heyrðu reglulega drunur frá Gígjökli í gær og fundu jörðina greinilega hristast. Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar. Þar er einnig minnt á að hætta stafar af gasi við Gígjökul.

Vatnshiti við gömlu Markarfljótsbrúna mældist 11°C í gær en tæplega 3°C um 2 km frá sporði Gígjökuls. Vatn streymir sitt hvorum megin við jökulinn og koma gusur á um 10 mínútna fresti. Vatnshiti náði hámarki kl. 6 í gærmorgun og var þá um 17°C.

Gosórói var mikill og stöðugur í gær og ekkert bendir til þess að gosi sé að ljúka.