Drunur frá Grímsvötnum

Ingibjörg Eiríksdóttir á Kirkjubæjarklaustri heyrði miklar drunur frá gosinu í Grímsvötnum þar sem hún var stödd við Sandgígjukvísl um kl. 21 í kvöld.

Þegar Ingibjörg sneri aftur á Kirkjubæjarklaustur var mikið öskufall þar og allt orðið grátt yfir að líta. Hún sagði “kunnuglega slykju” liggja yfir öllu en askan sé þó talsvert grófari en askan sem lagðist yfir Skaftárhrepp í gosinu í Eyjafjallajökli. Tilfinningin sé þó svipuð, askan fari í augun á fólki og setjist hratt á hluti sem lagðir eru út.

Almannavarnir hafa sent frá sér viðvörun vegna öskufalls frá gosinu og benda íbúuum á svæðinu að halda sig innan dyra og kynna sér bækling um öskufall sem hægt er að nálgast á heimasíðu almannavarna.