Drukkinn ökumaður fastur utan vegar

Lögreglan á Selfossi fékk tilkynningu um ökumann sem hafði fest bíl sinn utan vegar á Biskupstungnabraut norðan við Reykholt á tólfta tímanum í kvöld.

Vegfarendur tilkynntu lögreglu um manninn sem grunaður er um ölvun og sat hann enn í bíl sínum, spenntur í öryggisbelti, þegar lögreglu bar að garði skömmu síðar.

Maðurinn var einn á ferð og var ómeiddur eftir útafaksturinn og bíllinn er lítið skemmdur.

Ökumaðurinn var færður á Selfoss þar sem blóð- og þvagsýni var tekið af honum. Hann mun gista fangageymslur á Selfossi í nótt og verður yfirheyrður í fyrramálið.