Dróni truflaði þyrluna við björgunarstörf

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst síðdegis á mánudag beiðni frá Neyðarlínunni um aðstoð þyrlu vegna konu sem meiddist þegar hún hrasaði í Ingólfsfjalli.

TF-GNA fór í loftið laust upp úr klukkan fjögur og var þyrlan komin á slysstaðinn nokkrum mínútum síðar. Sjúkraflutningamenn og félagar úr björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru komnir á vettvang og höfðu hlúð að konunni. Þeir aðstoðuðu við að koma henni fyrir í sjúkrabörur sem voru svo hífðar upp í þyrluna. Konan var svo flutt á Landspítalann í Fossvogi.

Í miðjum hífingaraðgerðum varð áhöfnin vör við dróna í grennd við þyrluna. Athugun stjórnstöðvar leiddi í ljós að tækið var ekki á vegum björgunarsveita eða annarra viðbragðsaðila og því var ekki hægt að hafa samband við neinn til að fá drónann fjarlægðan.

Hann var í svokallaðri fráflugshæð þyrlunnar og í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að ljóst sé að ef eitthvað hefði komið upp á hefði hann geta valdið miklum skaða. Þá truflaði hann flugmenn þyrlunnar við störf sín en þeir þurfa á allri sinni einbeitingu að halda þegar jafn flókin verkefni og hífingar í fjöllum eru annars vegar.

Í tilkynningunni segir ennfremur að lögreglu og flugmálayfirvöldum verði gefin skýrsla um málið og taka þessar stofnanir ákvörðun um framhaldið.


Ljósmynd/Landhelgisgæslan

TENGDAR FRÉTTIR:
Slasaðist á Ingólfsfjalli

Fyrri greinVel heppnaður dagur gegn einelti
Næsta greinEgill keppir á sterkasta móti ársins