Drógu fé sitt í Reykjadalnum

Sauðfjáreigendur í Ölfusi komu saman í lok síðustu viku og drógu fé sitt í dilka í bráðabirgðarétt í Reykjadal í Ölfusi.

„Við leigðum okkur nokkrar grindur frá BYKO og hengdum upp, og útbjuggum fimm eða sex dilka til að draga í sundur,“ segir Páll Stefánsson, dýralæknir og formaður fjallskilanefndar Ölfuss.

Þessi lausn varð ofan á eftir að fresta varð byggingu nýrra rétta í Reykjadalnum þar sem ekki hafði fengið tilskylið leyfi og grenndarkynning ekki farið fram með nægum fyrirvara. Búið var að rífa gömlu réttirnar og því ljóst að bráðabirgðalausn sem þessi væri nauðsynleg.

„Þetta var um 800 fjár sem dregið var,“ segir Páll. Hann segir ennþá standa til að reisa nýjar réttir í mynni dalsins, en fylgja þurfi nauðsynlegum ferlum í því efni.

Fyrri greinPerla markahæst í stórsigri Selfoss
Næsta greinÞriðjungur í GOGG og Bláskógabyggð