Drífa nýr formaður stjórnar Skálholts

„Verkefnið leggst mjög vel í mig, það eru mörg spennandi verkefni framundan í Skálholti og það er mikill einhugur í nýrri stjórn að hlúa að starfinu á staðnum og horfa björt til framtíðar,“ segir Drífa Hjartardóttir á Keldum, nýr stjórnarformaður Skálholts.

Hún var skipuð í embættið af kirkjuráði og bað frú Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands hana formlega að taka að sér starfið. Með henni í stjórn eru þau Kristófer Tómasson, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, og Þorvaldur Karl Helgason, settur sóknarprestur Selfossprestakalls. Hólmfríður Ingólfsdóttir, skrifstofustjóri Skálholts og Kristján Valur Ingólfsson, vígslubiskup í Skálholti sitja fundi stjórnar.

Stjórnin ber ábyrgð á rekstri Skálholtsstaðar og á að móta stefnu staðarins til næstu þriggja ára.

Drífa var áður Alþingismaður og nú síðast sveitarstjóri Rangárþings ytra.

Fyrri greinSelfoss sigraði Fjölni óvænt
Næsta greinTveir handteknir vegna líkamsárásar