Drífa keypti Víkurprjón

Víkurprjón í Vík í Mýrdal var selt í gær, en um er að ræða stærsta atvinnurekanda í sveitarfélaginu. Kaupandi er eignarhaldsfélagið Drífa sem hefur aðsetur í Garðabæ.

Drífa ehf. er eitt elsta ullarfyrirtæki á Íslandi og var stofnað á Hvammstanga árið 1972. Í upphafi sérhæfði fyrirtækið sig í að framleiða jakka og peysur úr íslenskri ull, en það hefur þróast mikið á undanförnum árum og gengur í dag oftar undir nafninu Icewear.

Þórir N. Kjartansson, fráfarandi framkvæmdastjóri Víkurprjóns, segir að gengið hafi verið frá kaupunum í dag en kaupverðið verði ekki gefið upp. Hann telur að litlar breytingar verði á starfsemi Víkurprjóns að öðru leyti en því að hann láti af störfum.

Hann óttast ekki að starfsemin hverfi úr þorpinu þó svo að fyrirtæki af höfuðborgarsvæðinu hafi keypt reksturinn, og bendir meðal annars á að við verksmiðjuna sé einnig starfrækt ferðamannaverslun sem gangi mjög vel.

Fyrri greinSagðist vera með mann í gíslingu
Næsta greinÖruggt hjá Selfossi gegn ÍR