Drífa ehf tekur við veitingarekstri á Þingvöllum

Í tilefni samþykktar tilboðsins mættu þeir Aðalsteinn Pálsson framkvæmdastjóri, Ágúst Þór Eiríksson eigandi Drífu ehf., Einar Á. E. Sæmundsen þjóðgarðsvörður og Einar Júlíus Gunnþórsson sölustjóri Drífu ehf. á Þingvöll í dag. Ljósmynd/Þjóðgarðurinn á Þingvöllum

Í dag tók þjóðgarðurinn á Þingvöllum tilboði Drífu ehf. í veitinga- og verslunarrekstur á Þingvöllum í kjölfar útboðs Ríkiskaupa.

Auk Drífu ehf bárust tilboð frá Lagardere Travel Retail ehf og Sumardal ehf. Boðin verð voru ekki gefin upp hjá Ríkiskaupum en matshópur var skipaður til þess að fara yfir gæðaþátt útboðsins. Þann hóp skipuðu Einar Á.E Sæmundsen, þjóðgarðsvörður, Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður og Ásborg Arnþórsdóttir, ferðmálafulltrúi uppsveita Árnessýslu.

Tilboð Drífu ehf reyndist hagstæðast og var gerður samningur til þriggja ára með möguleika á að framlengja samning tvisvar sinnum um eitt ár. Drífa ehf mun taka formlega við verslunar- og veitingrekstri á Þingvöllum þann 15. júní næstkomandi.

Fyrri greinHamar með bakið upp við vegg
Næsta greinHjálmar bætti Íslandsmet 13 ára í spjótkasti