Drengurinn sem leitað var að við Ölfusborgir í gærkvöldi og fram á nótt er fundinn heill á húfi.
Lögreglan á Suðurlandi greindi frá þessu í tilkynningu á fimmta tímanum í nótt. Drengurinn var þá kominn í faðm fjölskyldunnar eftir að hafa verið fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi til skoðunar.
Hann er erlendur ferðamaður og ekki kunnugur staðháttum. Drengurinn sást síðast við Ölfusborgir um klukkan 16 í gær. Leit stóð fram á nótt og voru hátt í 200 björgunarsveitarmenn við leit ásamt lögreglu og þyrlu Landhelgisgæslunnar. Ekki kemur fram í tilkynningu lögreglu hvar drengurinn fannst.
Lögreglan á Suðurlandi vill færa öllum þeim sem tóku þátt í leitinni; viðbragðsaðilum, björgunarsveitum og fjölmörgum öðrum, innilegar þakkir fyrir óeigingjarnt framlag, samheldni og ómetanlega vinnu. Lögreglan segir að samstaða og úthald allra sem komu að málinu skipti sköpum við leitina.

