Drengirnir heimsóttu slökkvistöðina

Ungu drengjunum tveimur sem valdir voru að brunanum á geymslusvæði SET á Selfossi á dögunum var boðið í heimsókn á slökkvistöð Brunavarna Árnessýslu á Selfossi í dag.

Með öllu er ljóst að þarna var um óviljaverk að ræða og vildu stjórnendur BÁ ásamt foreldrum drengjanna hjálpa þeim að takast á við það áfall er þeir urðu fyrir við þennan atburð.

Starfsmenn BÁ fóru með þeim yfir þá hættu sem óvarleg meðferð með eld getur haft í för með sér auk þess sem þeir ræddu um þá hættu sem slökkviliðsmenn eru í við störf sín enda er slökkvistarf talið hættulegasta starf sem hægt er að vinna á friðartímum.

Strákarnir fengu síðan að kynnast tækjum slökkviliðsins, hvernig dæla á slökkvibíl virkar, hvernig reykköfunartæki slökkviliðsmanna eru notuð, hvernig á að nota handslökkvitæki auk þess sem þeir fengu að sjá Selfoss úr lofti í körfubíl slökkviliðsins.

„Það var virkilega gaman að fá þessa ungu flottu menn í heimsókn til okkar á slökkvistöðina, þeir eru fullir iðrunar en munu nú vonandi horfa fram á veginn því ekki gengur að dvelja í baksýnisspeglinum alla tíð,“ segir í frétt á heimasíðu BÁ.

Fyrri greinGuðbjörg og Ninna Sif ráðnar í Selfosskirkju
Næsta greinAnna Margrét 105 ára í dag