
Annarri nýju rennibrautinni í sundlauginni í Þorlákshöfn hefur verið lokað eftir ítrekuð óhöpp og slys á fólki.
Í tilkynningu frá Sundlauginni í Þorlákshöfn segir að brautinni sé lokað tímabundið á meðan unnið er að ítarlegri rannsókn á orsökum atvikanna. Brautin verður ekki opnuð á ný fyrr en fullvíst er að hún uppfylli allar öryggiskröfur.
Nýju rennibrautirnar voru opnaðar formlega þann 20. desember síðastliðinn.
Miklar umræður urðu á íbúasíðu Þorlákshafnar og Ölfuss í gær vegna rennibrautarinnar og þar kemur fram að fjöldi sundlaugargesta hefur slasast eða er lemstraður eftir að hafa rennt sér niður Drekann.
