„Draumurinn er að gera uppáhaldsmynd einhvers“

„Það þurftu allir sjötíu í bekknum mínum að taka upp 8-12 mínútna stuttmynd nú í sumar. Það atvikaðist einhvern veginn þannig að það komu þrjú erlend bekkjarsystkini mín til Íslands til þess að taka upp sínar stuttmyndir.“

Þetta segir Ólafur Ingvi Ólason, oftast kallaður Brúsi, frá Litlu-Sandvík í Sandvíkurhreppi en hann leggur stund á leikstjórn og handritaskrif í Columbia Háskóla í New York í Bandaríkjunum.

Fyrr í sumar mátti sjá kvikmyndatökulið að störfum víðsvegar um Suðurland en þá voru Brúsi og bekkjarsystkini hans að taka upp stuttmyndirnar sínar. Þrátt fyrir að vera öll í sama bekk þá eru stuttmyndirnar mjög ólíkar.

Kona sem verður ástfangin af ostru
„Austin Hsieh frá Boston tók upp miðalda fantasíu hér og þar á Suðurlandi þar sem leikararnir tala ensku með íslenskum hreim. Jasmin Tenucci frá Brasilíu tók upp mynd um strætóbílstjóra sem er að hætta og ungan mann sem er að taka við strætóleiðinni. Sú mynd var á íslensku og var tekin upp á Kaldaðarnesvegi og Bláfjallavegi,“ segir Brúsi.


Mynd af tökustað.

„Svo tók ég sjálfur upp mynd um síðasta dag fótboltamanns á Selfossi áður en hann fer í atvinnumensku en handritið skrifaði upphaflega Dan Slottje bekkjarbróðir minn frá Ithica í New York fylki. Síðast en ekki síst kom Maggie Briggs frá Norður Karólínu og tók upp mynd sem fjallar um unga konu sem á erfitt með félagsleg samskipti en verður ástfangin af ostru, sem hjálpar henni að komast yfir sín vandamál,“ segir Brúsi en þess má geta að bekkjarsystkini hans dvöldust öll hjá honum í Litlu-Sandvík á meðan Íslandsdvöl þeirra stóð.

Að sögn Brúsa gengu tökurnar að mestu leyti vel. „Auðvitað verður alltaf eitthvað að breytast á meðan maður er í tökum en það er bara hluti af því að vera kvikmyndagerðarmaður – að geta tekist á við breytingar með stuttum fyrirvara.“

Strætóstoppistöð á óvenjulegum stað
Leikmynd Brúsa og bekkjarsystkina hans olli stundum svolitlum ruglingi hjá vegfarendum. „Við bjuggum til lítið strætóstopp niður við Kaldaðarnes og einn daginn þegar við komum aftur á tökustaðinn eftir mat fundum við tvo túrista sem voru búnir að leggja þarna rétt hjá stoppinu. Þau voru að stilla sér upp til þess að taka mynd af sér á þessu einkennilega strætóskýli á þessum skrítna stað. Þau voru heldur betur svekkt þegar ég sagði þeim að þetta væri ekki raunverulegt strætóstopp heldur bara leikmynd fyrir stuttmynd,“ segir Brúsi.


Mynd af tökustað.

Þess má geta að þetta tiltekna strætóskýli ruglaði ekki aðeins útlendingana heldur voru nokkrir íbúar í hreppnum sem héldu að þarna væri komin ný stoppistöð fyrir Strætó í Árborg – á heldur óvenjulegum stað.


Strætóstoppið við Kaldaðarnes. Ljósmynd/Kári Úlfsson.

Brúsi segist vonast til þess að myndirnar verði sýndar í Selfossbíói. „Fyrst langar manni þó alltaf að koma myndinni inn á einhverjar kvikmyndahátíðir og ég held að flestir úr hópnum stefni á að reyna að koma þeim inn á einhverjar svona stuttmyndahátíðir.

Velgegni Jóns Daða á EM setti pressu á myndina
Sem fyrr segir fjallar stuttmyndin hans Brúsa um síðasta dag fótboltamanns á Selfossi áður en hann fer í atvinnumennsku. „Myndin segir frá síðasta degi Ágústs á Selfossi áður en hann fer í atvinnumennsku. Hann eyðir deginum í þynnkurúnt með Dóra vini sínum daginn eftir síðasta djammið. Það gerist í raun ekkert svo áhugavert en Ágúst áttar sig hægt og rólega á því hvað hann er að skilja eftir og byrjar að efast um að fara í atvinnumennsku.“

Auðvelt er að álykta sem svo að knattspyrnumennirnir Jón Daði Böðvarsson og Viðar Kjartansson hafi veitt Brúsa einhvern innblástur að myndinni en hann segir svo ekki vera. „Ég var alveg með hugann við Jón Daða og Viðar en það er ekki bein tenging þarna á milli. Við Dan fundum bara þennan sameiginlega flöt á tilveru okkar að vera frá smábæjum með íþróttahefð og unnum sögna út frá því,“ segir Brúsi og bætir því við að árangur Jóns Daða á EM hafi sett skemmtilega pressu á þessa mynd. Handritið skrifuðu þeir félagar þó löngu fyrir EM.


Brúsi ásamt Erlendi Sveinssyni, kvikmyndatökumanni. Ljósmynd/Maggie Briggs.

Lengi dreymt um að komast á þennan stað
Brúsi segir að námið úti hafi gengið mjög vel. „Ég gerði 4 mínútna langa stuttmynd í vetur sem er í eftirvinnslu og svo eru smærri verkefni yfir þessar tvær annir sem gera það að verkum að maður er alltaf að vinna að einhverju. Núna í sumar var svo verið að skjóta lokaverkefni fyrsta ársins sem er 8-12 mínútna löng stuttmynd.“

„Það er klárlega skemmtilegast að sökkva sér 100% í það sem maður vill gera í lífinu. Síðan ég byrjaði í náminu hef ég varla hugsað um annað en kvikmyndir og kvikmyndagerð og það er staður sem mig hefur dreymt um að komast á lengi,“ segir Brúsi.


Kvikmyndatökuliðið ásamt íbúunum í Litlu-Sandvík. Ljósmynd/Páll Óli Ólason.

Hent í djúpu laugina
Brúsi segir það vera hluti af náminu að nemendum er hent í djúpu laugina. „Eftir fyrsta árið er maður búinn að gera tvær stuttmyndir og skrifa bíómynd í fullri lengd auk þess að maður þarf að skjóta stuttar æfingar, læra að vinna með leikurum, mæta í kvikmyndafræði kúrsa og fyrirlestra um framleiðslu kvikmynda.“

„Það er ótrúlegt að komast í það að vera stanslaust að vinna að allskonar mismunandi verkefnum eftir að hafa búið við það að það sé erfitt að komast í að gera eitthvað eitt kvikmyndatengt verkefni með vinnu eða skóla áður fyrr,“ segir Brúsi.

Draumurinn er að gera uppáhaldsmynd einhvers
Brúsi segist líta upp til allra sem gera það sem þeir brenna fyrir og nefnir leikstjóra á borð við Lukas Moodyson, Richard Linklater og Kevin Smith sem dæmi. „Draumurinn er að gera uppáhaldsmynd einhvers, ná að snerta við einhverjum ókunnugum og vinna í kvikmyndum og engu öðru.“

„Að lokum vil ég koma til skila ævarandi þakklæti til allra þeirra sem hjálpuðu einhverjum af þessum stuttmyndum að verða til. Svo vil ég sérstaklega þakka Kára Úlfssyni, sem framleiddi myndina mína, Katrínu Aagestad, sem var aðstoðarleikstjóri hjá mér og Erlendi Sveinssyni, tökumanninum mínum. Einnig hefðu engar af þessum stuttmyndum gengið upp ef ekki væri fyrir Sigríði Regínu Sigurþórsdóttur, unnustu mína og ofurkonu,“ segir Brúsi að lokum.

Fyrri greinÞórður sýnir klukkur á bókasafninu
Næsta greinBókauppboð á bókamarkaðnum