„Dramatík sem endar með þessum ósköpum“

Alvarlegt umferðarslys var sett á svið við Suðurhóla á Selfossi í gærkvöldi. Slysið var hluti af lokaverkefni þriggja ungra manna í Kvikmyndaskóla Íslands.

Selfyssingurinn Axel Ingi Viðarsson og Hvergerðingurinn Tryggvi Freyr Torfason stóðu að slysinu ásamt félaga sínum, Norðmanninum Håvard Skaslien.

„Þetta er átta mínútna stuttmynd sem við erum að taka þessa dagana en þetta er lokaverkefni okkar í Kvikmyndaskóla Íslands,“ sagði Axel í samtali við sunnlenska.is. Hann er að ljúka námi í leikstjórn og framleiðslu en Tryggvi er að ljúka leikaranámi við Kvikmyndaskólann. Axel er framleiðandi myndarinnar, Håvard leikstýrir henni og Tryggvi leikur en saman unnu þeir að handriti myndarinnar.

„Þetta er dramatísk mynd sem endar með þessum ósköpum hérna,“ segir Axel en lögregla og sjúkralið hafa komið við sögu í öllum verkefnum hans í skólanum. „Já, lögreglan er sérstakt áhugamál hjá mér,“ segir Axel og hlær. „Við erum búnir að vinna í viku að þessari senu og það hefur gengið mjög vel í góðu samstarfi við lögreglu og sjúkraflutningamenn,“ segir Axel en um 20 manns koma að gerð myndarinnar.

Starf framleiðanda felst í því að fylgja verkinu eftir frá A-Ö og sjá til þess að myndin verði til. „Ég sé um að ráða starfsfólk og fylgja verkinu eftir, að tímasetningar standist og allt sé tilbúið þegar það á að vera tilbúið,“ segir Axel sem er að ljúka tveggja ára námi við skólann. Þetta er diplómunám en svo fer maður erlendis og lærir eitthvað meira,“ bætir Axel við.

Myndin á að vera tilbúin þann 9. desember en þá munu nafntogaðir kvikmyndaleikstjórar dæma hana. „Friðrik Þór og Baltasar eru meðal annarra í dómnefnd, þannig að stóru kallarnir geta gripið mann þarna ef þeim líst vel á útkomuna,“ segir Axel að lokum en myndin verður frumsýnd þann 18. desember nk.