Dragör að sökkva í sandinn

Flak seglskipsins Dragör sem strandaði á Bakkafjöru 6. desember 1920 er við það að hverfa í sandinn.

Við eftirlitsflug þyrlu Landhelgisgæslunnar í síðustu viku voru teknar myndir af flaki skipsins sem grafið er í sandinn NNA við Landeyjarhöfn.

Dragör var fjórmastra seglskip sem strandaði á Bakkafjöru í desember árið 1920. Var skipið á leið frá Kaupmannahöfn til Ísafjarðar til að sækja fisk til útflutnings. Í áhöfn skipsins voru 11 menn og björguðust þeir allir.

Í bókinni Þrautgóðir á raunastund : björgunar- og sjóslysasaga Íslands, kemur fram að nóttina eftir að Dragör strandaði gerði verra veður og fylltist skipið þá strax af sjó og sandi. Var því strax ljóst að skipinu yrði ekki bjargað.

Við mælingu Landhelgisgæslunnar í síðustu viku kom í ljós að stysta vegalengd til sjávar er í dag 410 metrar en Markarfljót flæddi að skipinu og gróf undan því í kring um 1960.

Samantekt í myndum á síðu Landhelgisgæslunnar.

Myndir af Dragör á bloggsíðu Tryggva Sigurðssonar. Þar eru m.a. mjög merkilegar myndir sem Torfi Haraldsson tók fyrir einum 40 árum síðan.