Dópaður og próflaus á stolnum bíl

Lögreglan á Hvolsvelli stöðvaði ökumann í síðustu viku undir áhrifum fíkniefna. Maðurinn hafði þegar tapað ökuréttindum sínum auk þess sem hann var á stolinni bifreið.

Annar ökumaður var stöðvaður grunaður um ölvun við akstur. Þá voru ellefu ökumenn stöðvaðir fyrir að aka of hratt. Sá sem ók hraðast var mældur á 133 km/klst hraða við Lómagnúp. Einn af þessum ökumönnum reyndist vera sviptur ökuleyfi og var gert að hætta akstri á staðnum.

Barn varð fyrir bifreið á Hellu og var flutt með sjúkrabifreið til Reykjavíkur. Ekki var talið að meiðsli þess væru alvarleg.

Þá varð slys í nágrenni Hellu er maður féll aftur fyrir sig í hálku. Hann var fluttur á heilsugæslustöðina á Hellu til aðhlynningar.