Dönskuverkefnin á vefinn

Tveir dönskukennarar við Grunnskólann í Hveragerði, þau Sigríður Sigurðardóttir og Heimir Eyvindarson, hafa nýverið samið og gefið út nýtt kennsluefni í kennslufagi sínu.

Námsefnið heitir „Lær og Leg“, eða „Lært og leikið“, og er það allt staðsett á kennsluvef á veraldarvefnum. Námsefnið samanstendur af gagnvirkum verkefnum, hlustunaræfingum og kennslubók, sem bæði er hægt að lesa beint af vefnum eða hlaða niður og prenta út.

Þá er hægt að velja þrjú mismunandi þyngdarstig verkefna úr öllu efni bókarinnar, þannig að kennarar ættu að geta fundið flestum sínum nemendum efni við hæfi. Kolbrún Vilhjálmsdóttir, myndmenntakennari við skólann myndskreytti kennsluefnið.

Sigríður Sigurðardóttir kennir sjötta bekk, en alla jafna hófst dönskukennsla ekki fyrr en í sjöunda bekk, og segir hún að í ákveðnu bókaleysi hafi þau Heimir ákveðið að fikra sig áfram við gerð kennsluefnis og hafi þetta verkefni þróast út frá þeirri vinnu.

„Við vildum prófa að færa þetta yfir í tölvur og bjóða upp á rafræn skil á verkefnum og það gekk bara vel,“ segir Sigríður í samtali við Sunnlenska. „Við erum nú spennt fyrir því að gera kannski eitthvað slíkt fyrir eldri nemendur, kannski eitthvað sem passar á iPad eða slíkar skjátölvur,“ segir Sigríður um möguleika á að þróa verkefnið áfram með einhverjum hætti.

Verkefnið var styrkt af Menntamálaráðuneytinu, Nordplus og sérstökum samningi um stuðning við dönskukennslu á Íslandi.

Áhugasamir geta skoðað kennsluvefinn hér