Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra, heimsótti lögregluembættið á Suðurlandi, ásamt aðstoðarmanni sínum í gær.
Þar áttu þau fund með yfirstjórn embættisins, fulltrúum lögreglumanna sem sinna samfélagslöggæslu, auk vakthafandi aðalvarðstjóra.
Á fundinum var farið yfir helstu þætti í starfsemi embættisins og þau fjölbreyttu verkefni sem lögreglan sinnir daglega. Þá var jafnframt kynnt stefnumótun embættisins til framtíðar og ræddar leiðir til að efla starf lögreglu á svæðinu.
Í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi segir að heimsóknin hafi verið afar ánægjuleg og undirstrikað skýrt þann áhuga og metnað sem ráðherrann hefur fyrir málefnum lögreglunnar og velferð starfsfólks hennar.

