Dómskvaddir menn meta Geysi

Þrír dómskvaddir menn eiga að meta verðmæti landareignar á Geysi í Haukadal sem ríkið hefur ákveðið að kaupa af jarðareigendum.

Rétt um mánuður er síðan fjármálaráðherra ákvað að gerður yrði kaupsamingur ríkisins við jarðeigendur á þá leið að ríkið keypti þeirra hlut, eða rúm sextíu prósent svæðisins. Áður hafði ríkið hafnað 900 milljón króna tilboði í sinn hluta svæðisins.

Um er að ræða svæði inna girðingar í kringum hverasvæðið. Miklar deilur hafa verið um svæðið, sem einkanlega hefur snúist um ágreining um hver skyldi koma að verndun og viðhaldi svæðisins. Um tíma greip meirihluti landeigendanna til þess ráðs að rukka inn fyrir aðgang að svæðinu, en það braut í bága við rétt ríkisins sem landeiganda sem ekki hafði samþykkt slíka ráðstöfun.

Að finna verðmæti svæðisins verður nú lagt í hendur matsnefndar, sem verið er að setja saman. Ríkið tilnefnir einn, landeigendur einn og oddamaður er skipaður af dómara ef hinir aðilarnir koma sér ekki saman um hann.

Fyrri greinChanté Sandiford semur við Selfoss
Næsta greinSkyrgerð og heimildarmynd um gos í Heimaey meðal hæstu styrkþega