Digur sektarsjóður í síðustu viku

Lögreglan að störfum. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir

Samanlagðar álagðar sektir fyrir umferðalagabrot námu 5,5 milljónum króna hjá lögreglunni á Suðurlandi í síðustu viku. Innkoman verður reyndar eitthvað lægri því þeir sem staðgreiða, eða greiða greiðsluseðil innan 30 daga fá 25% afslátt af sektinni.

Það kennir ýmissa grasa í dagbók lögreglunnar í síðustu viku. Þrír voru kærðir fyrir að aka sviptir ökurétti og tveir með útrunnin ökuskírteini. Þá voru tveir atvinnubílstjórar stöðvaðir án ökumannskorts.

Sjö voru kærðir fyrir að nota síma án handfrjáls búnaðar við akstur og 57 voru kærðir fyrir hraðakstur. Meirihluti þeirra var á ferðinni í Árnes- og Rangárvallasýslum.

Þá var vörubílstjóri sektaður fyrir að aka bíl sem reyndist vera 4,2 tonnum yfir leyfðri þyngd. Bílstjórinn var með malarhlass á pallinum á leið úr Þórustaðanámu. Þar sem stutt var í losunarstað á Selfossi var honum leyft að ljúka ferðinni en var sektaður fyrir brotið.

Fyrri greinEnginn stöðvar Uppsveitir
Næsta greinOpnunarhátíð listahátíðarinnar Hafsjós