Deilur um landamerki stöðva hótelbyggingu

Athugasemdir vegna landamerkja valda því að búið er að fresta afgreiðslu á skipulagi hótelbyggingar og annarra bygginga í Langholti í Flóa sem verið hafa til umfjöllunar hjá sveitarstjórn og skipulagsyfirvöldum undanfarna sex mánuði.

Ábúendur í Langholti 3 sóttu um leyfi til bygginga á hótelinu ásamt skemmu, reiðhöll, hesthúsi, tveimur gestahúsum og frístundahúsi í fyrrasumar á spildum úr landi Langholts 2 og 3. Ábúendur á nærliggjandi bæjum gerðu fljótlega athugasemdir við staðsetningu hótelsins og gestahúsanna og töldu fyrirhugaða starfsemi ekki samræmast þeirri byggð sem fyrir væri.

Málið hefur veltst nokkuð innan kerfisins og tekið ýmsum breytingum ásamt því að valda deilum í sveitarstjórn. Skipulagsstofnun gerði nokkrar athugasemdir við málið í byrjun september.

Á síðasta fundi sveitarstjórnar var málinu enn frestað þar sem erindi kom inn á fundinn þess efnis að óljóst væri um landamerki. Að sögn Aðalsteins Sveinssonar, oddvita, er það ekki í höndum sveitarstjórnar að leita staðfestingar á landamerkjum, um slíkt þurfi landeigendur ýmist að semja eða leita til dómstóla. Á meðan megi búast við því að ferlið sé stopp.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu

Fyrri greinDregið í Spurningakeppni átthagafélaganna
Næsta greinHeggnasi nær sexfaldaði leiguna