Deilt um byggingu hreppsins á líkamsræktarstöð

Meirihluti sveitarstjórnar Rangárþings eystra hefur samþykkt byggingu búningsklefa, líkamsræktarsalar við íþróttahúsið auk útibúningsklefa og gufubaðs við sundlaugina á Hvolsvelli.

Sjálfstæðismenn í minnihlutanum átelja vinnubrögðin og gagnrýna meirihlutann fyrir að skort á samráði og upplýsingum. Þeir segja að gera hefði átt úttekt á þörf fyrir nýrri líkamsræktarstöð þar sem einkaaðili reki þegar æfingasal á Hvolsvelli. Sveitarfélagið eigi því ekki að vera í samkeppni við þann aðila. „Það er örugglega ekki grundvöllur fyrir tvær líkamsræktarstöðvar hér,“ segir Elvar Eyvindsson, annar fulltrúa sjálfstæðismanna í sveitarstjórn . Hann segir eðlilegra að ræða við eigendur líkamsræktarstöðvarinnar Olympus heilsurækt sem fyrir er og kanna framtíðaráætlanir þeirra. „Það er vel hugsanlegt að þau vilji flytja starfsemi sína í væntanlega nýbyggingu en það liggur ekki fyrir,“ segir Elvar,

Guðlaug Ósk Svansdóttir, oddviti, segir ekki vera búið að fullhugsa rekstrarform væntanlegs æfingasalar og að ekki hafi verið gerð þarfagreining fyrir hann. Ekki hefur verið rætt formlega við eigendur Olympus segir hún en sveitarstjórn útiloki ekkert og sé opin fyrir samvinnu eigenda Olympus að starfsemi í væntanlegum æfingasal.

Guðlaug segir æfingasalinn vera hannaðan þannig að hægt sé að skipta honum upp og starfsemi á borð við sjúkraþjálfun geti verið í hluta hans. Gert er ráð fyrir því að hefja framkvæmdir um mánaðarmótin maí júní og að þeim ljúki eftir eitt og hálft ár en að vinna við útibúningsklefa og gufubað ljúki nú í sumar.

Fyrri greinNýr Goðasteinn kominn út
Næsta greinUngfrú Suðurland: Heiðrún Helga