Deilt um birtingu gagna í sorpútboði í Ölfusi

Lögmaður sveitarfélagsins Ölfuss vildi ekki að tilboðsgögn aðila sem tóku þátt í útboði á sorphirðu í sveitarfélaginu í desember í fyrra yrðu afhent öðrum þátttakendum í útboðinu.

Því hefur úrskurðarnefnd um upplýsingamál ekki verið afhent gögnin. Þetta segir Sigurður Jónsson, skipulags- og byggingafulltrúi sveitarfélagsins. Hann undrast einnig aðkomu nefndarinnar að málinu því til sé kærunefnd útboðsmála, sem fjalli um deilumál í slíkum efnum.

Málið er tilkomið vegna kröfu Íslenska gámafélagsins um að fá að sjá undirliggjandi gögn Gámaþjónustunnar í útboðinu en Gámaþjónustan bauð lægst í útboðinu sem framkvæmt var í fyrravetur. Leitaði ÍG til úrskurðarnefndar um upplýsingamál vegna þessa og hefur hún krafið sveitarfélagið um gögnin.

„Það var verkfræðistofan Efla sem framkvæmdi útboðið fyrir okkur og í öllu og einu er farið eftir stöðlum sem samþykktir eru af Samtökum iðnaðarins og Samtökum sveitarfélaga, segir Sigurður. Hann segir ómögulegt að afhenda samkeppnisaðilum gögn hinna um hvernig forsendur eru að baki niðurstöðu sem fengin er.

„Við afhendum t.a.m. bæjarfulltrúum ekki gögnin um hvernig tilboðsgjafar finna sínar tölur þar sem þetta eru álitin trúnaðargögn, þeir fá aðeins niðurstöðutölurnar,“ segir Sigurður.

Gunnsteinn Ómarsson sveitarstjóri í Ölfusi vildi ekki tjá sig um málið við Sunnlenska, en hann tengist fjölskylduböndum inn í Gámaþjónustuna. Málið verður tekið fyrir í bæjarráði Ölfuss í næstu viku.

Fyrri greinMetaregn á frjálsíþróttavellinum
Næsta greinSelfoss í 6. sæti