Deila um kostnað við ljósleiðara utan þéttbýlis

Hveragerðisbær og Gagnaveita Reykjavíkur deila um túlkun samnings um hver eigi að greiða fyrir lagningu ljósleiðara í fáein hús í Hveragerði, sem Gagnaveitan segir utan þéttbýlis.

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri hefur falið lögfræðingi bæjarins að skoða stöðu bæjarfélagsins í þeim efnum.

„Við teljum að hér sé Gagnaveita Reykjavíkur að fara á skjön við þann samning sem gerður var um sölu Hitaveitu Hveragerðis frá 2004 þar sem fram kemur að kaupandi muni leggja ljósleiðara um Hveragerðisbæ samkvæmt nánara samkomulagi og í samráði við bæjaryfirvöld. Hvergi er minnst á það að eingöngu sé hér átt við þéttbýli Hveragerðis enda skilmerkilega tekið fram að um allt bæjarfélagið sé að ræða,“ segir Aldís.

„Málið snýst um fjögur til fimm heimili sýnist okkur. Heildarkostnaður vegna þeirra liggur ekki fyrir en yrði væntanlega um fjórar til fimm milljónir króna miðað við þær kostnaðartölur sem Gagnaveita Reykjavíkur hefur gefið upp,“ bætti Aldís við.

Að sögn Eiríks Hjálmarssonar, upplýsingafulltrúa OR, gerði Orkuveitan samninginn við Hveragerðisbæ og ýmis önnur sveitarfélög um lagningu ljósleiðara, og í öllum tilvikum sé litið svo á að miðað sé við þéttbýli.

„Forráðamenn Gagnaveitunnar hafa verið í samskiptum við forsvarsmenn Hveragerðisbæjar, og ég á von á því að menn leysi málið í þeim áframhaldandi samskiptum,“ sagði Eiríkur.

Fyrri greinHeimsótti Fischersetrið á Selfossi
Næsta greinEkki útilokað að atburðarrásin leiði til eldgoss