Davíð ráðinn til Höfuðborgarstofu

Davíð Samúelsson, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands, hefur verið ráðinn deildarstjóri markaðs- og kynningardeildar Höfuðborgarstofu.

Davíð er með BSc gráðu í ferðamálafræði frá Háskóla Íslands auk þess að hafa lokið leiðsögumannsprófi. Davíð hefur starfað í framvarðarsveit íslenskrar ferðaþjónustu síðastliðin 14 ár og hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra Markaðsstofu Suðurlands frá árinu 2010 þar sem hann hefur leitt markvissa uppbyggingu, samstarf sveitafélaga og fyrirtækja og margvíslegt markaðsstarf.

Davíð hefur gegnt trúnaðarstörfum tengdum ferðaþjónustu bæði innanlands og utan það er í starfshópi stjórnvalda um gjaldtöku á ferðamannastöðum og í fagráði ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu. Þá sat Davíð einnig í stjórn EUTO European Tourist Officers í fjögur ár.