Dauður hrafn á Selfossi með fuglaflensu

Höfuðstöðvar Matvælastofnunar á Selfossi. sunnlenska.is/Sigmundur

Samkvæmt nýjustu rannsóknum Matvælastofnunar á fuglaflensu í villtum fuglum er skæð fuglaflensa útbreidd um allt land en ekki eru vísbendingar um fjöldadauða.

Í vikunni voru sýni rannsökuð hjá Tilraunastöð HÍ á Keldum, úr hrafni sem fannst dauður rétt hjá húsnæði Matvælastofnunar á Selfossi þann 19. október síðastliðinn. Rannsóknin leiddi í ljós að hann var sýktur af skæðri fuglaflensu af gerðinni H5N5.

Sama gerð hefur fundist í fleiri dauðum fuglum víða um land, ritu á Hallormsstað, erni á Breiðafirði og æðarfugli á Ólafsfirði. Sterkar vísbendingar eru um það að þessi gerð hafi borist með villtum fuglum til landsins síðsumars.

Matvælastofnun hefur ekki fengið tilkynningar um fjöldadauða í villtum fuglum nú í haust og enn sem komið virðast áhrif þessa afbrigðis á villtu fuglastofnana ekki vera mjög alvarleg.

Fólk er hvatt til að tilkynna fund á veikum og dauðum villtum fuglum til Matvælastofnunar, helst með hnitum fundarstaðarins.

Fyrri greinPétur Rúðrik sigraði á Opna Selfoss
Næsta greinBleikjan aflaði 685 þúsund króna styrk