„Dásamlegt að finna fyrir svona mikilli bjartsýni“

Berglind Hafsteinsdóttir, húsgagnabólstrari hjá Bólsturlist á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Á meðan sum fyrirtæki þurfa að draga saman seglin eða jafnvel leggja árar í bát vegna COVID-19, þá blómstra viðskiptin hjá öðrum.

Það eru ekki bara netverslanir sem njóta góðs af samkomubanninu. Hjá Berglindi Hafsteinsdóttur, húsgagnabólstrara hjá Bólsturlist á Selfossi, hefur verið vitlaust að gera síðan bannið var sett á.

„Um leið og samkomubannið tók í gildi þá hafði fjöldi fyrirtækja samband við mig þar sem að þau neyddust til þess að loka hjá sér en ákváðu að líta á björtu hliðarnar og nota tímann til þess að endurbólstra hjá sér,“ segir Berglind í samtali við sunnlenska.is.

„Þar á meðal eru til dæmis líkamsræktartæki og nuddbekkir sem eru annars í stöðugri notkun. Einnig eru veitingastaðir að taka allt í gegn hjá sér og bæta við stólum og bólstruðum bekkjum og breyta til,“ segir Berglind.

Átti ekki von á þessu
Berglind segir að það hafi komið henni á óvart hversu mikið er búið að vera að gera hjá henni í samkomubanninu. „Ég bjóst alls ekki við því að það myndi aukast hjá mér í þessu óvissuástandi en það er alveg dásamlegt að sjá ljós í myrkrinu og finna fyrir svona mikilli bjartsýni hjá fyrirtækjum á svæðinu. Íbúar eru yfirleitt meðvitaðir um að versla við fyrirtækin hér á svæðinu og erum við mikið þakklát fyrir það.“

„Einnig hafa einstaklingar haft samband við mig og þá eru það reyndar töluvert minni verkefni en áður. Nú er fólk svo mikið heima og langar kannski frekar nú en áður til þess að fríska aðeins upp á staka stóla eða setur og bök af eldhús- eða borðstofustólunum,“ segir Berglind.

Á erfitt með að hætta
„Mér þykir mjög gaman að geta aðstoðað fólk við að fríska upp á heimilin og vinnuaðstöður enda hef ég alveg svakalega gaman af minni vinnu og á mjög erfitt með að koma mér heim á réttum tíma. Ég er nú svo heppin hversu vel gift ég er og kemst því upp með það að vera fram eftir í svona vinnutörnum – en kvöldmaturinn er ávallt tilbúinn á borðinu þegar ég kem heim á kvöldin,“ segir Berglind brosandi.

Berglind bætir því við að Björn, maðurinn hennar, sé einnig duglegur að hjálpa til á verkstæðinu þegar hann er búinn í sinni vinnu á daginn. „Hann kann reyndar ekkert að sauma en hann kann að gera við saumavélina og allt sem bilar. Það kemur sér mjög vel,“ segir Berglind hlæjandi.

Antikstóll á ýmsum stigum uppgerðarinnar. Er að lokum eins og nýr. Ljósmynd/Aðsend

Fær aðstoð frá góðu fólki
Það er ekki bara eiginmaðurinn sem réttir Berglindi hjálparhönd þegar hún þarf á henni að halda. „Ég var svo heppin að kynnast Huldu Dröfn Atladóttur sem er lærður fatahönnuður og snilldar saumakona sem stekkur inn í verkefni þegar þörf er á.“

„Ég ákvað að taka Bergrós, 13 ára dóttur mína, úr grunnskólanum yfir þennan tíma og hefur hún komið á verkstæðið nokkra tíma á dag og létt undir við hin ýmsu verkefni en hún virðist vera með þetta allt í sér líka. Ég er einnig svo heppin að Hafsteinn faðir minn er enn starfandi bólstrari í Hamraborg 5 í Kópavoginum og þangað sendi ég ónýt bílsæti og traktorasæti þegar þau detta inn, en hann hefur sérhæft sig í þeim,“ segir Berglind.

Fólk gerir frekar upp húsgögn en að henda þeim
Berglind segir fólk vera meðvitaðra um kolefnisspor sitt nú en áður. „Ég er viss um að þeir sem sáu þættina Hvað höfum við gert í sjónvarpinu hugsi sig tvisvar um áður en ákveðið er að henda gömlu húsgögnunum á haugana en ég fann klárlega fyrir aukinni eftirspurn strax eftir þá þætti.“

„Fólk er að átta sig á því að það er vel hægt að gera upp og bólstra gömlu góðu húsgögnin og þykir gaman að gera þau alveg að sínum með því að velja áklæði sem passar inn á heimilið. Það er mjög gaman að sjá hversu mikið litirnir eru að koma aftur í tísku. Fólk er alveg óhrætt við að velja skæra liti í dag,“ segir Berglind.

Litrík húsgögn í uppáhaldi
„Ég reyni að vera dugleg við að setja inn fyrir og eftir myndir inn á Instagram og facebook-síðu Bólsturlistar og einnig myndir af vinnsluferlinu og þá sérstaklega af antikbólstrun þar sem mikil handavinna er á bak við, en fólk gerir sér ekki alltaf grein fyrir því hversu mikil vinna er undir áklæðinu og því er gaman að geta sýnt myndir.“

„Ég hef mjög gaman að því að gera upp húsgögn frá sjöunda og áttunda áratugnum þar sem að litadýrðin ræður ríkjum og er fólk oftast óhrætt að viðhalda því,“ segir Berglind.

Hefur náð að bjarga öllum húsgögnum
„Einnig er gaman þegar fólk kemur með húsgagn til mín sem það telur vera ónýtt en svo kemur annað í ljós þegar við erum búin að yfirfara það, en þá kemur Hilmar Hoffritz mjög sterkur inn þegar kemur að því að líma, pússa og sprauta. Ég man ekki eftir neinu húsgagni sem að honum hefur ekki tekist að bjarga en það getur verið alveg ótrúlega mikil vinna. Ég hef unnið við húsgagnabólstrun í tuttugu og sex ár og alltaf dettur reglulega eitthvað inn sem ég hef ekki bólstrað áður og er því mjög erfitt að fá leið á þessu starfi,“ segir Berglind að lokum.

Bólsturlist á Facebook

Bólsturlist á Instagram

Fyrri greinGuðmundur Hólmar í Selfoss
Næsta greinLandsmóti hestamanna 2020 frestað