Danskir loðdýrabændur skoða aðstæður

Hátt í 60 danskir loðdýrabændur voru í heimsókn hér á landi fyrir skömmu og skoðuðu aðstæður til loðdýraræktunar á Norðurlandi og Suðurlandi.

Að sögn Einars E. Einarssonar loðdýraræktarráðunautar er of snemmt að segja til um árangur af heimsókninni en ljóst er að margt á Suðurlandi vakti áhuga Dananna. ,,Það er margt sem mælir með loðdýrarækt á Suðurlandi enda auðvelt að sækja fóður þar vegna hinna miklu matvælaframleiðslu sem er á svæðinu.”

Einar sagði hvað skipulag varðaði horfðu menn gjarnan á jörðina Þjótanda í Flóa en hún væri mjög miðsvæðis og þar væri þegar fyrir bú. Taldi hann að jörðin hentaði mjög vel fyrir frekari uppbyggingu fyrir loðdýrarækt.

Stefán Guðmundsson minkabóndi í Mön í Skeiða- og Gnúpverjahreppi sagði of snemmt að segja til um hvort einhver árangur yrði af ferð Dananna en augljóst hefði þó verið að margt hefði komið þeim skemmtilega á óvart.

Flestir hefðu aldrei komið fyrr til Íslands. Hann sagði mikinn feng í því ef nýir aðilar kæmu inn í greinina, hvort sem um Íslendinga yrði að ræða eða Dani, þannig yrði rekstur fóðurstöðva hagkvæmari og faglega yrði greinin sterkari.

,,Þá má gera ráð fyrir að fjöldi starfa geti skapast,” sagði Stefán.