Danskir krakkar í heimsókn á Selfossi

Síðustu daga hafa nemendur við MC Holmsskole í Morsø á Jótlandi verið í heimsókn hjá jafnöldrum sínum í 7. MIM og 7. MK í Vallaskóla á Selfossi.

Bekkirnir tveir í Vallaskóla hafa verið í vinabekkjarsamstarfi við jafnaldra sína í Danmörku í nokkur ár. Þetta samstarf tengist Nordplusverkefni en saman hafa nemendurnir unnið að þemaverkefni, sem gengur út á að búa til ímyndað samfélag á Surtsey. Samhliða þessu hafa dönsku nemendurnir fræðst um jarðfræði Íslands, s.s. eldfjalla- og jarðskjálftavirkni. Nemendur í Vallaskóla hafa svo þjálfast heilmikið í dönsku.

Utan þess að vera í Vallaskóla og á Selfossi eru krakkarnir búnir að fara í Bláa lónið, Gullna hringinn, menningarferð til Reykjavíkur og í dag verða þau í Hrunaréttum.

Það er Linda Dögg Sveinsdóttir dönskukennari í Vallaskóla sem heldur utan um þetta samstarfsverkefni og hefur hún fengið góða hjálp frá foreldrum nemenda í 7. bekk. Með nemendunum frá MC Holmsskole komu þrír kennarar og skólastjórinn einnig.

Vonir standa til að samstarfið milli Vallaskóla og MC Holmsskole haldi áfram og að fleiri nemendur geti notið þess að vera í vinabekkjarsamstarfi á milli landa. Ljóst er að slíkt samstarf skilur eftir dýrmætar minningar hjá nemendum að ekki sé talað um það nám sem fram fer og ræktun vinasambands þjóða á milli.