Dansandi krossfiskar í fjölbraut

Fjölbrautaskóli Suðurlands fylltist af dansandi og trommandi krossfiskum í vikunni. Þar voru á ferð dimmitantar, nemendur sem stefna á að ljúka námi á haustönn.

Krossfiskarnir voru systur og bræður Péturs krossfisks sem er besti vinur Svamps Sveinssonar. Krossfiskarnir stigu dans og sungu fyrir nemendur og starfsfólk. Því næst gæddu þeir sér á kjötsúpu með starfsfólki og héldu svo út í óvissuferð.

Nú er próflestur tekinn við, en um 65 nemendur hyggjast brautskrást úr námi við skólann. Brautskráning haustannar fer fram laugardaginn 17. desember og hefst kl. 14.