Dalbær afurðahæsta kúabúið

Á stjórnarfundi í vikunni voru veitt verðlaun fyrir afurðahæstu kú ársins 2012 og afurðahæsta kúabúið árið 2012.

Verðlaun fyrir afurðahæsta kúabúið fóru til Arnfríðar Jóhannsdóttur og Jóns Viðars Finnssonar, Dalbæ í Hrunamannahreppi, en þar voru afurðir eftir árskú 7.525 kg mjólkur. Í Dalbæ hafa afurðir lengi verið miklar og góðar en vaxið jafnt og þétt síðasta áratuginn. Fyrir nokkrum árum var fjósinu breytt í legubásafjós með stuttum fóðurgangi og mjaltaþjóni.

Ábúendur eru áhugasamir um nautgriparækt og vel er búið að gripunum og afurðir eftir því. Kýrnar eru langræktaðir gripir en á árum áður á tímum kúasýninga á fjögurra ára fresti stóðu Dalbæjarkýrnar oft í efstu sætum í hinu stóra nautgriparæktarfélagi í Hrunamannahreppi.

Afurðahæsta kýr Suðurlands 2012 var Snotra nr. 354 frá Eystra-Seljalandi undan Hræsing nr. 98046 í eigu Óla Kristins Ottóssonar, Eystra-Seljalandi. Hún mjólkaði 11.782 og af verðefnum var 3,27 prótein og 3,2 fita.
Fyrri greinRagnar nýr formaður Búnaðarsambandsins
Næsta greinSASS hugnast ekki fjárlagafrumvarp