Dagný ráðin framkvæmdastjóri Markaðsstofunnar

Dagný Hulda Jóhannsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands frá 1. júní næstkomandi.

Í apríl lét Davíð Samúelsson af störfum hjá Markaðsstofunni en hann var ráðinn deildarstjóri Markaðs- og kynningardeildar Höfuðborgarstofu.

Alls sóttu 39 umsækjendur um stöðu framkvæmdastjóra Markaðsstofunnar. Dagný er með MBA gráðu í stjórnun frá Coventry University í Bretlandi sem og AP gráðu í markaðs- og hagfræði frá IBA International Business Academy í Danmörku.

Þá hefur hún langa reynslu af stjórnun, stefnumótun, markaðsmálum, starfsmannahaldi og rekstri, bæði hér heima og erlendis. Hún er nýflutt heim frá Danmörku, þar sem hún stundaði nám og starfaði í þau 7 ár sem hún var búsett þar ásamt fjölskyldu sinni. Þar starfaði hún m.a. sem markaðsstjóri IBA International Business Academy.

Síðustu misseri hefur hún tekið þátt í að hrinda í framkvæmd hugmyndinni að sprotafyrirtækinu Aðstoðarmaður.is, sem nú er orðið að veruleika.