Dagdvöl aldraðra lokað í fjórar vikur í sumar

Ljósmynd/Árborg

Bæjarstjórn Árborgar hefur tekið ákvörðun um að loka dagdvölinni Árblik í fjórar vikur í sumar en um leið fjölga notendum yfir aðra mánuði ársins.

Dagdvölin Árblik sem er staðsett í Grænumörk getur tekið við sextán einstaklingum á hverjum degi. Margir notendur nýta þjónustuna aðeins hluta úr vikunni en í heildina nýta um 38 einstaklingar dagdvölina í hverri viku. Í tilkynningu frá Árborg segir að með sumarlokuninni verði hægt að veita fleiri notendum þjónustu aðra mánuði ársins, innan samnings við Sjúkratryggingar Íslands.

Fækkar á biðlista
„Nú þegar hefur verið hægt að fækka á biðlistum og bjóða allt að tíu einstaklingum þjónustu hjá Árbliki ásamt því að auka þjónustu við aðra notendur. Vonir standa til að hægt sé að bjóða fleirum þjónustu á næstu vikum og með því fækka enn frekar á biðlista,“ segir í tilkynningunni.

Á lokunartíma Árbliks verður notendum tryggð grunnþjónusta út frá þörfum hvers og eins, svosem innlit og böðun. Eldri borgarar geta keypt sér heitan mat í þjónustumiðstöðinni í Grænumörk virka daga eða fengið mat heimsendan. Þjónustuþegum Árbliks stendur það til boða líkt og öðrum eldri borgurum í sumar.

Vinaminni ekki lokað
Sveitarfélagið Árborg rekur tvær dagdvalir með samningi við Sjúkratryggingar Íslands. Hin er Vinaminni, sem er sértæk dagdvöl fyrir einstaklinga með heilabilun og verður henni ekki lokað í sumar.

Fyrri greinÞór með sterkan útisigur en Hamar tapaði
Næsta greinFjölmenni í kaffispjalli á Níunni