Dagbók lögreglunnar: Fór úr axlarlið í slagsmálum

Slagsmál brutust út við skemmtistaðinn Hvíta húsið á Selfossi aðfaranótt sunnudags. Ekki liggur fyrir hver aðdragandi þeirra var.

Slagsmálunum lauk með því að tveir hlutu blóðnasir og einn var fluttur á heilsugæsluna á Selfossi þar sem hann hafði farið úr axlalið. Í átökunum datt einn á bíl með þeim afleiðingu að bíllinn dældaðist lítils háttar.

Í dagbók lögreglunnar kemur fram að hún hafi haft í mörg horn að líta í liðinni viku. Þrátt fyrir mikla umferð urðu einungis þrjú minniháttar umferðaróhöpp og þrír voru kærðir fyrir hraðakstur. Stór rúða var brotin í skólavistuninni Bifröst á Selfoss um miðja síðustu viku og um helgina var brotist inn í sumarbústað í Vallarholti við Laugarvatn. Þaðan var stolið rafmagnsverkfærum. Af ummerkjum að dæma eru líkur til að þjófurinn hafi ætlað að taka með sér helluborð en hætt við.
Fyrri greinTryggja varaafl fyrir vatnsdælur
Næsta greinKvenfélagið styrkir björgunarfélagið