Dagbók lögreglu: Voðaskot í Þorlákshöfn

Lögreglan á Selfossi sinnti fimmtán umferðaróhöppum og slysum í síðustu viku. Einn ökumaður var kærður fyrir ölvun við akstur um helgina og tveir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.

Alvarlegustu tilvikin voru í Þorlákshöfn á föstudag þar sem maður slasaðist illa á fæti þegar skot úr haglabyssu hljóp í hann. Á laugardagskvöld féll 10 ára stúlka á uppþvottavél í sumarbústað með þeim afleiðingum að hnífur stakkst í bak hennar.

Að morgni föstudags var tilkynnt að ekið hefði verið á ljósastaur á gatnamótum Birkimarkar og Smyrlaheiðar í Hveragerði en ökumaður yfirgefið vettvang án þess að tilkynna áreksturinn. Brot úr bifreið voru við staurinn. Talið er að brotin gætu verið úr Nissan bifreið.

Skorað er á ökumann að gefa sig fram við lögreglu sem og vitni í síma 480 1010.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Selfossi.

Fyrri greinVegalausir menn brutust inn í tóma íbúð
Næsta greinFjórir fastir á fjöllum