Dagbók lögreglu: Ungir öldurhúsagestir

Nýliðin helgi og vika gengu vel fyrir sig hjá lögreglunni á Selfossi, sem hafði í mörg horn að líta.

Fyrir hádegi á föstudag var brotist inn í sumarbústað í landi Heiðarbæjar í Þingvallasveit. Boð bárust um yfirstandandi innbrot í gegnum þjófavarnakerfi. Í ljós kom að flatskjá hafði verið stolið og einhverju fleira. Þrátt fyrir leit fundust þjófarnir ekki.

Um helgina fóru lögreglumenn til eftirlits á skemmtistað í Þorlákshöfn eftir að ábending barst um að þar væru inni gestir sem ekki hefðu aldur til. Þegar lögregla birtist yfirgáfu nokkrir staðinn. Einn var þar of ungur og var honum ekið heim til foreldra sinna.

Afskipti voru höfð af heimsóknargesti á Litla Hrauni nú fyrir helgi vegna gruns um að hann hygðist smygla lyfjum til fanga sem hann ætlaði að heimsækja.

Sex ökumenn voru í vikunni kærðir fyrir hraðakstur og einn fyrir ölvunarakstur.

Veturinn er aðeins að minna á komu sína með því að kasta snjó á fjallvegi. Llögreglan segir tímabært fyrir ökumenn sem eiga oft leið um heiðar og fjallvegi að huga að vetrarbúnaði ökutækja sinna. Þar undir eru vetrarhjólbarðar, ljósabúnaður og rúðuþurrkur.

Fyrri greinHvernig bætum við menntun barnanna okkar?
Næsta greinFSu hlaut Gulleplið