Dagbók lögreglu: Tólf teknir á nagladekkjum

Lögreglumenn á Selfossi höfðu í nógu að snúast í síðustu viku þar sem þeir sinntu um 150 verkefnum. Umferð var mikil og gekk vel.

Mánuður er liðinn frá því óheimilt var að nota nagladekk nema í sérstökum undantekningartilfellum. Um helgina höfðu lögreglumenn afskipti af tólf ökumönnum sem óku á nagladekkjum. Sekt við að vera á nagladekkjum er 5000 krónur á hvert nagladekk.

Ungur karlmaður var handtekinn um helgina á Selfossi með kannabisefni í fórum sínum. Hann var færður á lögreglustöð og yfirheyrður. Ákæra verður lögð fram á hendur honum.

Síðdegis á föstudag slasaðist 87 ára gömul kona á höfði eftir fall við biðstöð strætó við Fossnesti á Selfossi. Konan hlaut skurð á höfði og var flutt með sjúkrabíl á heilsgæsluna á Selfossi til aðhlynningar. Meiðsli hennar voru að örðu leyti ekki alvarleg.

Þrettán ára unglingur slasaðist á fæti þegar hann féll af torfæruhjóli á keppnis- og æfingasvæði við Bolöldu í gær. Ökumaðurinn var fluttur með sjúkrabifreið á Slysadeild Landspítala þar sem gert var að sárum hans. Grunur var um að unglingurinn hafi lærbrotnað.

Fyrri greinRáðist á mann í heimahúsi
Næsta greinVarað við svikasímtölum frá útlöndum