Dagbók lögreglu: Tíður hraðakstur á þekktum slysakafla

Seint á fimmtudagskvöld var tilkynnt til lögreglu um hross í lausagöngu við Suðurlandsveg á móts við Ölfusborgir. Lögreglumenn fóru strax að sinna verkefninu en skömmu síðar kom tilkynning um að ekið hefði verið á hross á þessum sama stað.

Hrossið fannst stuttu síðar rétt hjá slysstaðnum en reyndist óslasað. Lausaganga bjúfjár er óheimil í Ölfusi en ekki liggur fyrir með hvaða hætti hrossið komst út af girtu svæði sem það hafði verið á.

Í vikunni voru átján ökumenn kærðir fyrir of hraðann akstur, flestir á vegakafla frá Vík og austur fyrir Kirkjubæjarklaustur að Höfn. Á þessari leið urðu nokkur alvarleg umferðarslys á síðasta ári.

Þrír ökumenn voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Einn þeirra var einnig grunaður um að hafa verið undir áfengisáhrifum.

Annars nýttist vikan lögreglumönnum vel til að sinna umferðareftirliti og til að yfirfara, hreinsa og laga tæki og búnað auk þess að vinna við frágang mála.

Fyrri greinValt útaf flughálum Grafningsvegi
Næsta grein„Lát mat þinn vera meðal þitt“