Dagbók lögreglu: Stórtjón unnið á hjólaskóflu

Aðfaranótt fimmtudagsins 16. júní síðastliðinn voru unnin skemmdarverk á stórri hjólaskóflu í sandnámu í landi Hrauns í Ölfusi.

Allar rúður hjólaskóflunnar voru brotnar og reynt hafði verið að gangsetja hana. Jafnframt var útvarpstæki úr vinnuvélinni stolið. Ljóst er að tjónið er mikið í krónum talið.

Sömu nótt var nokkrum hundraða lítra af dísilolíu stolið af tveimur vörubifeiðum Jarðefnaiðnaðar í Þorlákshöfn. Vörubifreiðarnar stóðu á athafnasvæði fyrirtækisins við Nesbraut í Þorlákshöfn.

Um hvítasunnuhelgina var verðmætu sláttuorfi stolið úr læstum verkfærakassa sveitarfélagsins Árborgar í Nauthólum á Selfossi. Sláttuorfið er af gerðinni Husqvarna 235R appelsínugult að lit.

Þeir sem veitt geta upplýsingar um þessi mál eru beðnir að hafa samband við lögreglu í síma 480 1010.

Fyrri greinKjarreldur á Þingvöllum
Næsta greinMikið tekjutap vegna snjóa