Dagbók lögreglu: Stolið úr dósagámi í Grímsnesinu

Skráninganúmerum var stolið af bifreið sem stóð í Fljótsmörk í Hveragerði aðfaranótt laugardags. Lögreglan skorar á þann sem það gerði að skila númerunum eða vísa á þau.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.

Þar er einnig greint frá því að lögreglu barst tilkynning á laugardag um mann á rauðum Toyota Rav sem væri að stela drykkjarumbúðum úr söfnunargámum í Grímsnesi. Ekki er vitað hver þar var á ferð en ef einhver getur veitt upplýsingar um málið er sá beðinn að hafa samband í síma 444 2010.

Í vikunni voru 48 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur, þrír fyrir ölvunarakstur og tveir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna annar þeirra var auk þess kærður fyrir að hafa ekið sviptur ökurétti. Fimm voru kærðir fyrir að tala í farsíma án handfrjáls búnaðar.

Fyrri greinTvær bílveltur á sömu mínútunni
Næsta greinHarpa og Heiðar sigruðu á vormótinu