Dagbók lögreglu: Spánverji á 170 km hraða

Lögreglumenn á Selfossi hafa sinnt ýmiskonar verkefnum í liðinni viku svo sem að fara um sumarhúsabyggðir að næturlagi og kanna hvort þar væru á ferð menn í skipulagðri glæpastarfsemi eins og innbrotum og þjófnuðum.

Einnig hafa lögreglumenn verið að við leikskóla og fylgst með hvort foreldrar barna noti þann öryggisbúnað sem ætlast er til og reglur segja til um. Því miður hefur borið á því að börn hafi verið laus í bifreiðum en það er að sjálfsögðu á ábyrgð ökumanns.

Spænskur ökumaður var mældur á 170 kílómetra hraða á Suðurlandsvegi í Flóa í gær. Hann var færður á lögreglustöðina þar sem hann var sviptur ökurétti í þrjá mánuði og gert að greiða 120 þúsund króna sekt.

Fjögur fíkniefnamál komu til kasta lögreglu um helgina. Öll voru málin minni háttar þar sem menn voru með í vörslum sínum kannabisefni.

Þrír ökumenn voru í vikunni kærðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og 33 fyrir hraðakstur.

Fyrri greinKamar féll á bifreið
Næsta greinIngvar Pétur aðstoðar Ragnheiði