Dagbók lögreglu: Slasaðist þegar hönd fór í vélsög

Í síðustu viku bárust lögreglunni á Selfossi tólf kærur vegna hegningarlagabrota. Í tveimur tilvikum var um að ræða heimilisofbeldi.

Í öðru tilvikinu brottvísaði lögreglustjóri karlmanni af heimili og úrskurðaði í nálgunarbann.

Þá var maður sleginn hnefahöggi í andlitið í heimahúsi á Selfossi og annar var skallaður í öðru húsi. Brotaþolarnir hlutu minni háttar áverka. Hvorugur hefur lagt fram formlega kæru.

Þá voru kærðar tvær hótanir, skjalafals og nokkur eignaspjöll.

Tvö minni háttar fíkniefnamál komu til kasta lögreglu og voru afgreidd á hefðbundinn hátt.

Maður slasaðist á hendi við heimahús í Hveragerði síðastliðinn fimmtudag. Hann hafði verið að búta niður timbur þegar hann fór með hendina í vélsög. Hann slasaðist illa á hendi og var fluttur með sjúrkabifreið á Slysadeild Landspítala.

Níu ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur í vikunni, tveir fyrir ölvunarakstur og einn fyrir akstur undir fíkniefnaáhrifum.

Fyrri greinHarður árekstur fólksbíls og rútu
Næsta greinMiklar endurbætur á Undralandi