Dagbók lögreglu: Skotið á veiðihús

Lögreglumenn á Selfossi höfðu í mörg horn að líta í síðustu viku. Meðal annars var skotið úr haglabyssu á veiðihús við Hróarholtslæk austan við Stokkseyri.

Húsið er í eigu Stangaveiðifélags Selfoss er á veiðisvæði við Tungu-Bár. Veiðihúsið er gamall símaklefi. Nokkurt tjón hlaust af þar sem rúður brotnuðu og stálgrind skemmd. Ekki liggur fyrir hvenær þetta atvik hefur átt sér stað en lögregla biður þá sem vita eitthvað um þetta að hafa samband.

Um stund gerði frostrigningu á Suðurlandi á föstudagskvöld sem gerði það að verkum að vegir urðu flughálir. Bifreið fór þrjár veltur út af Skeiðavegi með tvo menn innanborðs og sluppu þeir við meiðsli. Skömmu síðar var bifreið ekið á vegskilti við nýtt hringtorg á Suðurlandsvegi austan við Selfoss. Þriðji bíllinn fór útaf veginum skammt frá Þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum. Einn var í bílnum og hann slasaðist ekki.

Brotist var inn í tvö veiðihús við Hlíðarvatn aðfaranótt föstudags. Boð bárust frá eftirlitskerfi um yfirstandandi innbrot. Lögreglumenn sem fóru þegar áleiðis á vettvang mættu bifreið við hringtorgið í Þorlákshöfn og stöðvuðu hana. Í bifreiðinni voru tveir 17 ára piltar og í bílnum fundust tvö kúbein og eftirlitsmyndavél sem reyndist vera úr öðrum bústaðnum. Piltarnir voru handteknir og færðir í lögreglustöð þar sem þeir voru yfirheyrðir. Annar þeirra viðurkenndi að þeir hefur báðir brotist inn í annan bústaðinn en neituðu alfarið að hafa átt við hinn. Þeir voru látnir lausir að loknum yfirheyrslum.

Fjórir ökumenn voru kærðir fyrir ölvunarakstur í liðinni viku, einn fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og níu fyrir hraðakstur.